Borgarlínan
SAMKEPPNISTILLAGA FYRIR GÖTUGÖGN
UNNIÐ ÁSAMT SAMÚEL BJARNASYNI
Meginhugmynd verkefnisins er að mynda flæði að stoppistöðvum Borgarlínu. Útfærsla stöðvarpalla miðast að því að hafa flæði við nærliggjandi umhverfi og hagkvæmni í fyrirrúmi. Með upplyftum palli er stöðvarsvæðið aðgreint án þess að það sé rofið frá umliggjandi svæði. Hver pallur kemur til að standa vel í umhverfi sínu þar sem lagt er upp úr einfaldleika og hagnýtu kerfi sem stuðlar að notkun Borgarlínu. Öll atriði eru hugsuð út frá sama grunnkerfi og hafa litla viðhaldsþörf. Efniskennd stöðva miða að íslensku veðurfari og einfalt er að raða saman götugögnum til að útfæra stöðvar í mismunandi stærðum. Hert öryggisgler sinnir afmörkun frá umliggjandi svæði og skýlið myndar veðurkápu fyrir notendur. Einkennislitir Borgarlínu munu einkenna stöðvapallana þar sem liturinn yrði á setflötum bekkja. Setfletir bekkja og arma eru úr slitsterku harðplasti og má hafa þá yfir eitt einingarbil eða fleiri, hönnun er með og án bakstuðnings og arma. Tyllibekkir eru hannaðir svo fólk geti stutt sig upp að veggjakerfi stöðvarinnar meðan á bið stendur. Grindverk fylgja kerfi sem miðast að heildarlausn stöðvar og styðjast við byggingarreglugerð. Stöðvarkerfið miðar að því að nýta polla sem hjól og rafskútustand utan hennar en innan stöðvar nýtist pollinn sem innritunarstöð. Stafrænir skjáir veita allar helstu upplýsingar um borgarlínu og sjá má á útskýringarmynd. Ruslastampar fylgja nýjum stöðlum sorplosunar og sorphirðu og standa í 90 cm hæð og ganga inn í kerfi stöðvarinnar. Staurar fyrir lýsingu eru í 4 m hæð og ganga einnig inn í kerfi stöðvarinnar.